top of page

Almennt 

 

Um almenn viðmið um skólareglur í grunnskólum segir: “Samkvæmt reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum skal setja skólareglur í hverjum grunnskóla með skýrum viðbrögðum og viðurlögum við brotum á þeim. Undirstrikað er að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að auka ábyrgð og styrkja persónuþroska og hæfni nemenda. Reglurnar skulu árlega kynntar nemendum og foreldrum þeirra og birtar í starfsáætlun. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur.” 

 

Jafnframt byggja skólareglur Grunnskóla Grundarfjarðar á fyrirliggjandi greinum í grunnskólalögum nr. 91/2008, en þar segir í  14. grein. 

„Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.  Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin“ 

 

Í Grunnskóla Grundarfjarðar er lögð áhersla á: 

  • jákvæð samskipti milli allra sem þar starfa: nemenda og starfsfólks.  

  • að nemendur fái jákvæða og uppbyggjandi leiðsögn varðandi hegðun og framkomu.  

  • gagnkvæma virðingu og tillitssemi. 

 

Skólareglur 

 

Skólareglur Grunnskóla Grundarfjarðar gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans, hvort heldur í kennslu, innan veggja skólans eða utan, á skólaskemmtunum, á skólalóð, vettvangsferðum, félagsstarfi eða ferðalögum. Til að starfsandi og skólabragur sé sem bestur í okkar skóla höfum við sett okkur fáar og skýrar reglur. Einnig kemur þar skýrt fram hvernig brugðist er við agabrotum. 

 

Skólareglur Grunnskóla Grundarfjarðar eru: 

  • Við stundum námið af bestu getu og mætum stundvíslega.​ 

  • Við komum fram af kurteisi og tillitssemi og förum að fyrirmælum starfsfólks. 

  • Við göngum vel um og stofnum hvorki öryggi okkar né annarra í hættu. 

  • Við hugum vel að heilsu okkar og neytum ekki tóbaks, áfengis eða ólöglegra vímuefna 

  • Símar eru eingöngu leyfðir í kennslustundum með leyfi kennara. 

  • Einelti er ekki liðið. 

 

Óviðeigandi hegðun nemenda er þegar: 

  • Nemandi hegðar sér ekki í samræmi við skólareglur og almennar kurteisi- og samskiptareglur. 

  • Nemandi veldur með hegðun sinni truflun á skólastarfi og/eða vanlíðan hjá öðrum nemendum eða starfsfólki. 

 

Viðurlög ef út af bregður vegna hegðunar nemenda: 

  • Viðkomandi kennari aðvarar nemanda einslega. 

  • Brjóti nemandi ítrekað eða alvarlega gegn skólareglum, ræðir umsjónarkennari við nemanda og foreldra/forráðamenn.  

  • Ef enn situr við það sama vísar viðkomandi umsjónarkennari málinu til skólastjórnenda sem kallar nemanda og foreldra/forráðamenn á fund um málið og reynt að finna lausn mála. 

  • Reynist viðleitni skólastjórnenda árangurslaus er málinu vísað til fræðsluyfirvalda. Við þessar aðstæður er heimilt að vísa nemandanum úr skóla á meðan tekið er á málefnum hans. 

  • Foreldrar/forráðamenn eru látnir vita á öllum stigum málsins og það unnið í samvinnu við þá.  Í samræmi við ákvæði laga um stjórnsýslu er nemandanum og forráðamönnum tryggður andmælaréttur og viðurlög taki mið af jafnræðisreglu og meðalhófsreglu. 

 

Þess verður að hafa í huga: 

“Brottvísun úr skóla er stjórnsýsluákvörðun og ber því að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, við alla málsmeðferð.” 

 

Endurskoðað haust 2019

VIÐBURÐIR

bottom of page